Klakki

Klakki býður meirihluta hlutafjár VÍS til sölu

13.03 2013

Stjórn Klakka ehf hefur ákveðið að bjóða a.m.k. 60% af hlutafé VÍS til sölu í útboði sem áætlað er að fari fram í apríl og hefur stjórn VÍS lagt inn umsókn til Kauphallar um að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallarinnar.  Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með fyrirhugaðri sölu og ferli því sem framundan er.

VÍS er sterkt og öflugt félag og áhugaverður fjárfestingakostur, enda um að ræða stærsta vátryggingafélag landsins sem er með ríflega þriðjungs markaðshlutdeild. Líkt og fram kemur í ársreikningi VÍS vegna ársins 2012 námu iðgjöld félagsins um 16,5 ma.kr árið 2012 og eru þau mjög dreifð bæði milli vátryggingagreina og viðskiptavina en enginn af rúmlega 80 þúsund viðskiptavina félagsins  stendur á bak við meira en 1% af iðgjöldum þess. Verðmæti eigna félagsins nam um 43,5 ma. kr. í lok árs 2012 og eigið fé þess var um 14,5 ma.kr.  Rekstur félagsins gekk vel árið 2012 og var rúmlega 3,0 ma.kr. hagnaður af rekstri þess. Eins og fram kemur í skýringu nr. 34 með ársreikningi VÍS, lagði slitastjórn SPRON  fram stefnu á hendur VÍS á síðasta ári og krafðist riftunar á endurgreiðslu SPRON í október 2008 á 2 ma.kr. peningamarkaðsláni sem VÍS hafði veitt SPRON í september 2008.  Stjórnir Klakka og VÍS telja málatilbúnað slitastjórnar SPRON standa á veikum grunni en í því skyni að draga úr óvissu um áhrif ofangreinds dómsmáls á virði hlutabréfa VÍS og eiginfjárstöðu félagsins, mun Klakki skuldbinda sig samhliða sölu til fjárfesta og skráningu í Kauphöll að leggja VÍS til fé, fari svo að VÍS verði dæmt til að endurgreiða fjárhæðina.

Eins og áður sagði er áætlað að stærð útboðsins nemi a.m.k. 60% af útgefnum hlutum í VÍS. Gert er ráð fyrir að um 10% verði boðin fjárfestum sem vilja kaupa hlut að andvirði á bilinu 0,1-50 m.kr. og um 30% verði boðin fjárfestum sem skrá sig fyrir kaupum á hlut að andvirði yfir 50 m.kr., en þessir hlutir verða allir seldir á sama endanlega útboðsgengi sem verður á fyrirfram tilgreindu verðbili. Auk þess er gert ráð fyrir að um 10% verði boðin fjárfestum með áskrift að tæplega 2,5% hlutum og verða þeir seldir hæstbjóðendum. Að auki verður um 10% hlut ráðstafað til viðbótar í framangreindar tilboðsbækur á grunni eftirspurnar. Nánari upplýsingar um VÍS og fyrirkomulag útboðsins verða kynntar samhliða birtingu skráningarlýsingar VÍS.

VÍS er traust og öflugt félag með djúpar rætur í íslensku samfélagi og langa og farsæla rekstrarsögu og er vel til þess fallið að auka úrvalið í Kauphöllinni.  Að mati Klakka eru innri og ytri aðstæður hagfelldar sölu á þessum tímapunkti og er markmið Klakka að útboðið marki grunninn að dreifðu eignarhaldi á VÍS og er þá bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu. Klakki hyggst ekki selja einstökum fjárfesti virkan eignarhlut í félaginu, en kaup á 10% hlut eða stærri í tryggingafélagi eru háð því að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggi fyrir. Með því að fá hlutabréf VÍS tekin til viðskipta í Kauphöllinni er stuðlað að auknum seljanleika og virkari verðmyndun með hlutabréf útgefin af félaginu, dreifðu eignarhaldi og að upplýsingar um félagið verði aðgengilegar fyrir hluthafa félagsins, viðskiptavini og almenning.

Frekari upplýsingar veita:

Magnús Scheving Thorsteinsson Forstjóri Klakka - sími 774-7678 - mst@klakki.is

Þórbergur Guðjónsson hjá Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka - sími 856-6823 - thorbergur.gudjonsson@arionbanki.is

Til baka


Eldri tilkynningar